Skálafellssel

Um Skálafellssel

Brekkurnar í vestur frá Skálafelli heita Innbrekkur. Þar var býli sem byggt var sem hjálenda frá Skálafelli, nefnt Skálafellssel eða Sel. Það stóð miðja vega á milli Skálafells og Smyrlabjargarár. Sér þar vel til rústa enda búið þar til ársins 1875.[1] Þar eru tóftir sem sýna myndarleg bæjarhús með garði fyrir framan svo og ýmsar manngerðar minjar, útihús, garðar og greinileg mannvist. Það er gaman að rölta frá Skálafelli inn brekkurnar í vesturátt og heimsækja Skálafellssel, þar er fallegt bæjarstæði og víðsýnt til suðurs.

Kirkjubókum ber ekki saman um ábúendur í Skálafellsseli þar sem stundum er allt að fjórbýlt á Skálafelli og ekki hægt að sjá hver bjó á hvaða býli. Einnig eru misvísandi upplýsingar að finna í Sóknarmannatali og Prestþjónustubók, sem reyndar sami prestur færir inn í, séra Þorsteinn Einarsson. Einnig er vitað um húsmannsbýli á Skálafelli og ábúendur þar, m.a. á sama tíma og Skálafellssel er í byggð, en ekki er vitað hvar það býli gæti hafa verið.

Það voru Jón Þorsteinsson frá Felli og kona hans Sigríður Þorvarðardóttir sem byggðu býlið í Skálafellsseli. Þau fluttu þangað frá Uppsölum árið 1843 eða skömmu eftir að Gísli Þorsteinsson bróðir Jóns flutti frá Felli að Uppsölum. Þau eignuðust að minnsta kosti 13 börn sem öll voru fædd áður en þau komu að Skálafellsseli.[2]Jón fær góða umsögn, var formaður á skipi, og komst af með áhöfn sína þegar slysið mikla varð í útróðri frá Skinneyjarhöfða árið 1843 og margar skipshafnir fórust.[3] Haft er eftir Ara Hálfdánarsyni hreppstjóra á Fagurhólsmýri: „Jón í Seli var listaskrifari.“ Hann hafði séð nokkra sálma skrifaða eftir hann. „Á þeim var stórsnilldarleg sett hönd og fögur snarhönd.“[3] Hann var heilagur maður, sagði séra Þorsteinn Einarsson.[3]

Guðmundur Jónsson sonur Jóns og Sigríðar tók við búi í Skálafellsseli 1854. Kona hans var Snjálaug Jónsdóttir, hún var systir Eymundar Jónssonar frá Dilksnesi. Snjálaug kom með Sigríði Jónsdóttur móður sinni er hún flutti í Austurlandið og giftist fljótlega inn í búið í Skálafellsseli. Í Sóknarmannatali eru þau Guðmundur og Snjálaug skráð í Skálafellsseli allt til ársins 1865, en í Prestþjónustubók eru þau skráð á Skálafelli þegar börn þeirra fæðast. Í sömu bók eru þau skráð á 1. býli á Skálafelli eftir 1860, og það virðist því vera Skálafellssel. [4][5]

Í Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu segir: „Guðmundur, sonur Jóns í Seli, bjó þar eftir föður sinn 1854 – 1875 og eftir það var ekki búið í Skálafellsseli.“[1]

Heimildir

[1]  Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó.
[2]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Prestþjónustubók 1816-1846. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is
[3]  Þórbergur Þórðarson, (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning.
[4]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Sóknarmannatal 1849 – 1879. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is
[5]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Prestþjónustubók 1847-1911. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is