Ítarefni

Sævarhólar

Í grennd við bæinn voru hólar, sem hann bar nafn af. Sterkur grunur lék á því, að þar byggi huldufólk eða þetta fólk, sem menn sjá öðruhverju og ekki er jarðlífsfólk. Seinustu ábúendur á Sævarhólum voru Jón Þorsteinsson og Steinunn Stefánsdóttir, hálfsystir Guðnýjar ömmu minnar og amma Svavars listmálara, heiðarlegt fólk, sem ekki gat sagt ósatt. Í þeirra tíð á Sævarhólum bar það til á björtum degi á sumri, að lest sást koma austan úr landinu og hverfa fyrir hól, ekki langt frá bænum, og fram undan honum kom hún aldrei aftur.

Hjá Jóni og Steinunni var unglingur, sem Dýrleif hét, Jónsdóttir Steinssonar, en Jón sá mun hafa verið bróðir Þórðar langafa míns. Dýrleif var einörð í æskunni eins og fleiri af Steinsætt og neitaði að huldufólk væri til, fór óvirðingarorðum um þá hégilju og manaði það jafnvel út úr hólunum, ef það væri þar inni.

Eitt sumarkvöld um níuleytið, eftir að nótt var farin að dimma, var Dýrleif send að sækja kýr og kálfa, sem voru á beit skammt frá bænum. En tíminn leið, og hún kom ekki aftur. Þá fór fólk að verða hrætt um, að eitthvað hefði orðið að henni, og var nú hafin leit um hólana, sem ekki voru margir, og landið í kring, og Jón bóndi gætti vandlega inn í öll útihús, og það var kallað og hljóðað. Þessu var haldið áfram, þangað til komið var svartamyrkur. Þá var leitinni hætt. Dýrleif fannst hvergi, og enginn gat gizkað á, hvað af henni hefði orðið. Gekk fólk svo til hvílu, því að frekari leit var ekki hægt að gera þá um kvöldið vegna dimmu.

En nálægt klukkan tvö um nóttina vaknar fólk á Sævarhólum við grát og þungan ekka á baðstofuglugganum. Þar liggur þá Dýrleif máttlaus af skelfingu. Jón bóndi gekk út og kom henni inn og spurði hvar hún hefði verið. Þá sagði Dýrleif sína sögu, og var hún svona :

Hún sagðist hafa gengið hjá hólnum, sem hún nefndi. Þá var eins og þar stæði bær, og út úr honum kom kona, sem þreif í mig og dró mig inn í bæinn og barði mig og sagði, að ég skyldi ekki komast héðan lifandi út. Þarna var önnur kona inni, sem var betri við mig og vildi ekki að vonda konan færi svona illa með mig. Ég hágrét og hljóðaði og heimtaði að fá að fara heim til mín. Á endanum fór betri kona með mig út úr bænum og sleppti mér, og ég hljóp heim eins og fætur toguðu og vissi varla af mér af skelfingu.

Þessa sögu, söguna af Dýrleifu á Sævarhólum, kunni hvert mannsbarn í Austur-Skaftafellssýslu í ungdæmi mínu, og hún var börnum og unglingum mikil áminning að hegða sér skikkanlega í grennd við álfabyggðir. Fólk gerði sér allar hugsanlegar getgátur til að skýra hana, en varð engu nær. Jón og Steinunni þekktu allir svo vel, að engum kom til hugar, að þau hefðu spunnið þetta upp, enda óskiljanlegt, hverju sá uppspuni hefði átt að þjóna. Og Dýrleif mundi varla hafa þagað yfir því síðar meir, ef þessi furðulega saga hefði verið skálduð um hana þar á heimilinu, og það því síður, að henni var alltaf illa við söguna.

Enginn, sem nokkuð mundi bernsku sína, gat heldur ímyndað sér, að Dýrleif, tólf ára gamall unglingur, hefði lagt það á sig að fela sig einhver staðar úti í nokkra klukkutíma í næturmyrkri til þess að ljúga því að fólki, að hún hefði kommizt í kast við álfa, sem hún hafði alltaf neitað, að væru til.

Ekki þótti heldur sennilegt, að hún hefði sofnað á einverjum afviknum stað og sofið á fimmta klukkutíma undir berum himni í nætursvala að áliðnu sumri og dreymt huldufólkssöguna.

Það var ekki fremur talin trúleg skýring, að Dýrleif hefði skroppið til næstu bæja, en þeir voru Skálafell og Oddi á Mýrum, því að bærinn í Austurlandi mun þá hafa verið í eyði. Að Skálafelli var um 50 mínútna gangur skemmstu leið frá Sævarhólum og yfir Kolgrímu að fara. Austur að Odda var um 40 mínútna gangur beinleiðis, og þá varð annaðhvort að fara yfir Heinabergsvötnin eða út yfir lónið og austur fjörurnar og upp yfir lónið austan Heinabergsvatna. Það þótti ekki líklegt að tólf ára unglingur hefði lagt út í þessar torfærur, ekki einu sinni á björtum degi og því síður á dimmri nóttu. Auk þess lá fólki það í augum uppi, að ef Dýrleif hefði farið á bæi, mundi það ekki hafa legið í leyndum, þegar huldufólkssagan komst á gang.

Ævintýri Dýrleifar varð aldrei skýrt né skilið með náttúrulegum rökum, sem svo eru kölluð, hvernig sem fólk veltir því fyrir sér. Þó var langt í frá, að það ætti engan sinn líka, og það studdi sögu hennar, því að einsdæmin eru ótrúlegust. Svona atburðir höfðu verið að gerast öðru hverju hér og þar frá ómunatíð, og stundum voru aðstæður þannig vaxnar, að sú ályktun varð óumflýjanleg, að eitthvað ,,óskiljanlegt” hafi hlotið að koma fyrir.

Þess voru meira að segja mörg dæmi, að fullorðið fólk vissi ekki betur en það hefur gengið í svo kallaða álfabústaði, og þeim frásögnum fylgdu stundum sýnileg tákn, sem sönnuðu, að þarna hafði gerzt eitthvað meira en tómur hugarburður.

Þeir sem þekktur Dýrleifu vissu, að henni var illa við að rifjað væri upp við hana ævintýri hennar á Sævarhólum. Það virtist sýnilegt, að hún hefði aldrei losnað undan áhrifum af skelfingunni, sem sló hana, þegar sá atburður var að gerast. Þess vegna hliðraði fólk sér hjá að spyrja hana út í þetta. Einu sinni varð þó maður til að víkja orðum að því við hana. En hann fékk ekki annað svar en það, að hún fór að gráta. Þá var Dýrleif orðin gamalmenni.

Við krakkarnir vorum áminntir um að láta uppákomu Dýrleifar okkur að kenningu verða og vera aldrei með ærsl eða ljótan munnsöfnuð hjá Háubölunum og Helghól. Og það þurfti ekki að segja okkur það oft. Við vorum alltaf kurteisir við álfabústaðina. Saga Dýrleifar var áhrifamikil.

Þórbergur Þórðarson; Í Suðursveit; Mál og menning 1981

Scroll to Top