Sæbjarnartóft
Um Sæbjarnartóft
Í örnefnaskráningu Stefáns Einarssonar þar sem Skarphéðinn Gíslason er heimildamaður segir þegar lýst er örnefnum fremst í Borgarhafnardal þar sem heitir Dalsmýri. ,, Vestur af henni við Fellið heitir Sæbjarnartótt, nefnd eftir Sæbirni Egilssyni austan úr Borgarfirði. Séra Þorsteinn Einarsson á Kálfafellsstað fékk hann austan að, en honum leiddist í Borgarhöfn og flutti í Krikatorfu, þá í Staðarlandi, nú í Borgarhöfn ……………. Hann flutti síðar austur á Hrafnkelsstaði og átti þar ríka ekkju, varð síðar faðir Magnúsar læknis á Hesteyri.” [2]
Í Byggðasögu Austur Skaftafellssýslu segir að árið 1863 hafi komið austan af landi Sæbjörn Egilsson, nánar tiltekið austan frá Borgarfirði. [1] Heimildum ber ekki alfarið saman um tilvist Sæbjörns í Suðursveit. Samkvæmt heimildum í kírkjubókum hefur ferill Sæbjarnar verið eftirfarandi:
Sæbjörn Egilsson er fæddur árið 1836. Hann er skráður í Prestþjónustubók Einholtssóknar yfir innkomna 26 ára vinnumaður á Borg á Mýrum austur, sem svarar þá til ársins 1862. [5] Hann var uppalinn á Hvannstóði í Borgarfirði eystri og er þar 9 ára við Manntal 1845. [5]
Í Prestþjónustubók Kálfafellsstaðar kemur fram að árið 1864 komu í Suðursveit Sæbjörn Egilsson 27 ára yngismaður og Katrín Halldórsdóttir yngisstúlka á Mýrum, hann frá Slindurholti á Mýrum. Þau eru þar skráð á jarðnæði í Borgarhöfn og í dálk aftan við stendur ,,ætla að eigast.” [3] Þau finnast hins vegar ekki skráð í Sóknarmannatali Kálfafellsstaðarsóknar á árunum 1864 og 1865.
Í Byggðasögunni er talað um að Sæbjörn hafi byggt sér býli á Krikabakka og búið þar frá 1863 – 1866., en virst vera í húsmennsku hjá séra Þorsteini eftir að bústýra hans Katrín Halldórsdóttir lést á Staðarbakka 20. júní árið 1866. [1] [3]
Árið 1866 er Sæbjörn skráður 2. býli í Borgarhöfn ásamt Þorbjörgu Halldórsdóttur vinnukonu og Teiti Gíslasyni syni hennar. Þorbjörg var systir Katrínar og virðist hann hafa flutt til hennar eftir lát Katrínar [4]
Árið 1867 er Sæbjörn sagður 30 ára vinnumaður á Kálfafellsstað og styður það frásögn Byggðasögunnar um skamma dvöl hans þar. Árið 1868 fer Sæbjörn frá Kálfafellsstað að Ketilsstöðum í Suður Múlasýslu , ógiftur.[3]
Segja má að lítil tóftarbrot og óljósar heimildir geymi því sögu tengda dvöl Sæbjarnar uppi í Borgarhafnardal og þótti við hæfi að skrá það hér svo að sú vitneskja glataðist ekki.
Heimildir
[1] Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó.
[2] Stefán Einarsson, (1961). Örnefnaskrá fyrir Borgarhöfn. Heimildarmaður: Skarphéðinn Gíslason á Vagnstöðum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
[3] Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Prestþjónustubók 1847-1911. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is
[4] Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Sóknarmannatal 1849 – 1879. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is
[5] Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.) Einholt Prestþjónustubók1847 – 1881. Sótt á http/vefsja.skjalasafn.is
[5]Manntal á Íslandi 1845; Norður og Austuramt ( 1985) Reykjavík Prentsmiðjan Hólar