Girðing

Um Girðingu

Ekkert er vitað um upphaf byggðar í Girðingu, þar sem mörg býli voru í Borgarhöfn og tíðar breytingar á búsetu. Auk þess eru býlin ekki nafngreind í Sóknarmannatali Kálfafellsstaðarkirkju þegar ábúendur eru skráðir. 

Í Girðingu eru veglegar húsatættur og mikill garður þar vestan við. Girðing fór í eyði 1896 og þá  keypti Þórarinn Gíslason á Neðribæ í Borgarhöfn, Girðingu og endurbyggði húsakost og nýtti sem gripahús.[1] Jóhanna Stefánsdóttir er heimildamaður um að austasta tóftin var byggð frá grunni árið 1960 og grjótið í hana var tekið úr garðinum vestan við Girðingu. Næsta tóft vestan við hana var hlaða sem byggð var áður en Jóhanna mundi eftir sér. Síðan kom eldhúsið og tvær tóftir þar vestar.[1] 
Vitað er með vissu að á árunum 1867- 1896 var skráður bóndi í Girðingu, Þorsteinn Sigurðsson f. 1834 og kona hans Oddný Steinsdóttir f.1836. Hún dó 1874 í Girðingu, af barnsförum ásamt dóttur sinni nýfæddri, þá aðeins 38 ára gömul. Börn þeirra voru fimm en aðeins ein stúlka komst til fullorðinsára. Bjarnheiður, f. 1865, Sigurður, f. 1.7. 1867, d. 20.12. 1867, andvana piltbarn, f. 14.7. 1868, Margrét, f. 3.9. 1872, d. 24.9. 1876, Guðlaug, f. og d. 21.8. 1874. Seinni kona Þorsteins var Rannveig Sigurðardóttir, f 1836. Börn þeirra: Sigjón, f. 1876, Guðlaug, f. 1878, Ingibjörg, f. 1881. Ingibjörg varð síðar húsfreyja á Skálafelli, móðir Ragnars Sigfússonar bónda á Skálafelli.[2][3] Bjarnheiður dóttir Þorsteins af fyrra hjónabandi var kona Ketils Jónssonar frá Gerði f. 1856 og bjuggu þau um tíma í húsmannsbýli í Borgarhöfn, sem mun hafa verið kallað Miðhús. 

Í Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu er sagt að Þorsteinn Sigurðsson hafi búið í Girðingu frá 1853. [4] Í Sóknarmannatali um innkomna í Kálfafellsstaðarsókn árið 1864 er skráður Þorsteinn Sigurðsson 30 ára ógiftur vinnumaður og kemur frá Maríubakka í Fljótshverfi. Ekki er hægt að sjá með vissu að hann sé bóndi í Girðingu fyrr en 1867, þó hann sé skráður í Borgarhöfn sem fyrirvinna 1865.[3]  

Ekki er vitað með vissu hverjir voru ábúendur í Girðingu áður en Þorsteinn hóf þar búsetu.  

Heimildir

[1]  Jóhanna Stefánsdóttir frá Neðribæ í Borgarhöfn. Viðtal við Þorbjörgu Arnórsdóttur 30. apríl 2003. 
[2]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Prestþjónustubók 1847-1911. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is 
[3]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Sóknarmannatal 1849 – 1879. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is 
[4]  Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó.