Erindi sem Benedikt Þorsteinsson frá Sléttaleiti flutti á ættarmóti sem niðjar Þorsteins Jónssonar og Þórunnar Þórarinsdóttur héldu. Þorsteinn og Þórunn bjuggu á Sléttaleiti 1908 – 1935 ásamt börnum sínum.
Heimildir greina frá að með vissu hafi verið búið í Steinum frá árinu 1600 og sennilega nokkuð lengur. Upphaflega hafa Steinar verið í landnámi Hrollaugs Rögnvaldssonar sem nam land í Hornafirði og bjó fyrst undir Almannaskarði og síðar á Breiðabólsstað. Ýmis örnefni í landi Steina og Breiðabólsstaðabæja benda til að Papar eða aðrir kristnir menn hafi búið þar áður svo sem eins og Papbýlisfjall sem síðar nefndist Breiðabólsstaðarfjall eða Staðarfjall.
Sögur herma að í Steinum hafi oft búið uppgjafaprestar frá Kálfafellsstað og stundum prestsekkjur. Steinar þóttu góð bújörð og henni fylgdu ýmis hlunnindi svo sem sjávarfjara alllöng, skógur á Steinadal, grastekja í Hvannadal, silungsveiði í Lóninu og ekki síst voru talin hlunnindi að fram með bæjarveggnum rann lækur ofan úr brekkunni og út í Lónið þar stutt frá og sagt var að í læknum sem nefndur var bæjarlækur hafi verið mikill silungur og húsfreyjan hafi ekki þurft annað en að stíga út á bæjarhelluna og rétta hendina niður í lækinn og ná sér í silung í pottinn. Ég man vel eftir þessum læk sem nefndur var Steinalækur og sást oft silungur í honum, en ekki var hann svo stór að hann þætti hæfur til matar. Sú álagatrú hvíldi á Steinum að þar mætti engar breytingar gera á húsaskipan eða bæta við byggingar né heldur byggja það upp sem aflaga fór. Þá mundi einhver ógæfa ganga yfir bæinn eða ábúendur hans. Um þetta segir í eftirfarandi vísu sem talið er að sé eftir Ingimund síðasta ábúenda í Steinum og hljóðar þannig:
Enginn í Steinum auki kofa
Ellegar byggi heygarðinn
Af því fjallið fyrir ofan
Færir þá niður stríðsher sinn
Kaldakvísl öllu umturnar
Áður sem þarna lagfært var.
Sagt var að heygarðsveggur hafi verið að falli kominn og Ingimundur hafi byggt hann upp að nýju en svo skeði það árið 1829 að stórrigningu gerði og mikla vatnavexti en ekki hef ég séð þess getið hvort þetta skeði strax eftir uppbyggingu heygarðsins. En í þessari rigningu brutu Steinavötn sér farveg úr Köldukvísl og flæddu svo vestur með Klifatanga og heim að bæjardyrum í Steinum og eyðilögðu allt graslendi frá bænum. Þá kom líka á sama tíma mikið grjóthrun úr fjallinu fyrir ofan og eitt stórt bjarg lenti á smiðju sem stóð smáspöl vestan við bæinn og braut hana niður og grófust þar undir matarbirgðir heimilisins sem að mestu voru hangikjöt og hákarl. Ekki munu fleiri hús hafa eyðilagst. Þetta mun hafa gerst um næturtíma því fólkið flýði fáklætt upp úr rúmunum skelfingu lostið og leitaði sér skjóls inn með hlíðinni og fann sér skjól undir stórum steinum. Húsráðendur í Steinum voru á þessum tíma Ingimundur Þorsteinsson frá Felli og kona hans Helga Bjarnadóttir frá Skaftafelli en nú við þessar slæmu aðstæður tók Helga léttasótt og ól barn þarna undir steininum. Þetta var drengur sem skírður var Sigurður. Eftir þetta var ekki búandi í Steinum, en þetta skeði 7. júlí 1829. Ingimundur byrjaði fljótt á að byggja nýjan bæ vestar með fjallinu í landi Steina, en landamörk voru þá milli Steina og Breiðabólsstaðarbæja þau sömu og síðar milli Breiðabólsstaðarbæja og Sléttaleitis um Markaleiti. Baðstofuna byggði Ingimundur framan undir stórum steini, sjálfsagt til að hlífa henni við steinkasti úr fjallinu. Bæinn skírði hann Sléttaleiti.
Sigurður Ingimundarson sem fæddist undir steininum 7 júli 1829 ólst upp hjá foreldrum sínum á Sléttaleiti til þriggja ára aldurs en þá er hann fluttur að Svínafelli í Öræfum til móðusystur sinnar og var þar þangað til hann giftist Guðrúnu Pálsdóttur á Hnappavöllum. Þau bjuggu fyrst í Svínafelli og síðar á Kvískerjum en fluttu svo til dóttur sinnar og manns hennar Ara Hálfdánarsonar á Fagurhólsmýri og þar lést hann árið 1891.
Sigurður var talinn merkur gáfumaður, hann var hreppsstjóri og gegndi fleiri trúnaðarstörfum í Öræfum. Hann er t.d. langafi þeirra Kvískerjabræðra svo einhverjir séu nefndir. Ekki hefur Ingimundur búið lengi á Sléttaleiti því fimm árum eftir að hann byggði þar eða árið 1835 flutti hann að Reynivöllum og á Sléttaleiti fór að búa Jón Eyjólfsson og Elín Guðmundsdóttir. Jón mun hafa verið fæddur í Steinum og þau hjón hafa búið þar einhver ár áður en Ingimundur og Helga fluttu þangað og hófu
búskap. Næstu ábúendur á Sléttaleiiti voru Þorsteinn Þorsteinsson frá Borg á Mýrum og Sigríður Jónsdóttir prests á Kálfafellsstað. Þau bjuggu á Sléttaleiti í 11 ár eða til 1857 en þá komu að Sléttaleiti Jón Bjarnason og Sigríður Gísladóttir. Þau komu frá Viðborði á Mýrum og voru á Sléttaleiti í 7 ár eða til 1858. Sama ár fóru að búa að Sléttaleiti Pétur Jónsson og Ragnheiður Pálsdóttir. Þau komu úr Öræfum og voru á Sléttaleiti í 8 ár eða til 1866. Þau voru afi og amma þeirra Fornustekkabræðra Gísla forna og Rikka sem svo voru nefndir. Næst komu að Sléttaleiti Jón Pálsson og Steinunn Siguðardóttir. Jón var frá Eskey á Mýrum og Steinunn frá Kálfafelli. Þau voru á Sléttaleiti í 4 ár, en næsti ábúandi á Sléttaleiti var líka í 4 ár. Sá hét Jón Þorsteinsson. En 1874 komu að Sléttaleiti Benedikt Einarsson frá Brunnum og kona hans Ragnhildur Þorsteinsdóttir skipasmiðs sem svo var nefndur og var frá Borgarhöfn. Þau bjuggu á Sléttaleiti í 10 ár. Benedikt var bróðir Guðnýjar langömmu okkar Sléttaleitissystkina í móðurætt. Maður hennar langafi okkar var Benedikt Þorleifsson. Þau bjuggu á Hala. Benedikt dó haustið 1915 stuttu áður en ég fæddist og ber ég því nafn hans. Vorið eftir 1884 eftir 10 ára búskap á Sléttaleiti fóru þau Benedikt og Ragnhildur að Skálafelli og tóku þar við búi Halls Pálssonar og konu hans Herdísar Bergsdóttur en um sumarið á túnaslætti dó Benedikt. Þetta ár bjó Jón sonur Halls á Skálafelli og kona hans Sigríður Eyvindsdóttir á Sléttaleiti. Vorið eftir flutti ekkjan Ragnhildur Þosteinsdóttir aftur að Sléttaleiti en Jón Hallsson fór að Kálfafelli. Þorsteinn skipasmiður flutti nú til dóttur sinnar og aðstoðaði hana við búskapinn ásamt börnum hennar sem voru ung að aldri og á Sléttaleiti dó Þorsteinn. Þess má geta að Ragnhildur var amma Sveins Einarssonar síðasta ábúanda á Sléttaleiti og langamma Einars Braga rithöfundar sem ýmislegt hefur skrifað um Suðursveit. Árið 1887 giftist Ragnhildur seinni manni sínum Þórði Arasyni frá Reynivöllum og bjó með honum í 6 ár á Sléttaleiti en hann dó 1893. Þá var Stefán sonur hennar fulltíða maður og fór að Skaftafelli og bjó þar alla sína tíð eftir það.
Árið 1898 fóru að búa á Sléttaleiti Björn Klemensson og Jóhanna Jóhannsdótir. Þau höfðu áður búið á Skálafelli og bjuggu á Sléttaleiti í 2 ár en fluttu þá að Brunnum og þar hafa börn þeirra búið síðan og barnabörn fram á þennan dag. Næst komu að Sléttaleiti Bjarni Jónasson og Sigríður Jónsdóttir. Þau komu úr Vestur Skaftafellssýslu en búskapur þeirra að Sléttaleiti stóð aðeins einn mánuð því Sigríður undi þar ekki. Þau höfðu þá jarðarskipti við hjón á Kálfafelli, Björn Þórðarson og Sigríði Jónsdóttur en þær nöfnur voru systur. Björn og Sigríður bjuggu að Sléttaleiti í 3 ár en fluttu svo að Hömrum og flestir fulltíða menn hér í sýslu munu kannast við og muna eftir Birni í Hömrum. En Bjarni Jónasson og hin Sigríður voru foreldrar Bjarna á Brekkubæ og var Sigríður nokkurs konar þjóðsagnapersóna og við hana kennd Siggurák í Svínafellssfjalli í Öræfum. Þar fór einu sinni lamb í svelti og enginn treysti sér til að fara í þessa rák í fjallinu. En svo er það einu sinni um morguntíma er fólk kom á fætur þá er Sigga að koma með lambið niður brekkurnar undir fjallinu, hafði þá farið um nóttina að ná í það og þótti þetta mikið furðuverk og rákin síðan nefnd Siggurák.
Næst komu að Sléttaleiti Hans Wíum og Lússía Þorsteinsdóttir. Hans var Vestur Skaftfellingur en Lússía fædd á Felli og alin upp á Reynivöllum. Þau bjuggu á Sléttaleiti til ársins 1908 og fluttu þá að Breiðabólsstaðargerði eða Gerði eins og það er venjulega nefnt. Lússía lærði ljósmóðurfræði og var síðan ljósmóðir í Suðursveit og hafði þann starfa á hendi fram á gamals aldur. Hún var ljósa okkar Sléttaleitissystkina.
Haustið 1908 fóru foreldrar okkar að búa á Sléttaleiti. Það voru þau Þorsteinn Jónsson fæddur á Skálafelli en fluttist með foreldrum sínum að Sævarhólum sama ár og ólst þar upp og Þórunn Þórarinsdóttir frá Breiðabólsstað, hún var elsta barn þeirra Þórarins Steinssonar og Guðleifar Benediktsdóttur frá Hala og var hún og Halabræður því systra og bræðrabörn. Þau pabbi og mamma gengu í hjónaband 5. október 1908 og hafa því byrjað búskap að Sléttaleiti þá um haustið. Þau eignuðust 7 börn en tvö þau fyrstu önduðust í fæðingu. Það voru drengir sá fyrri fæddur 2. desember 1909 en sá síðari 18. mars 1911. Svo segir um þá í kirkjubók að þeir hafi verið teknir með töngum og hefir því verið erfið fæðing. Næst eða 1912 fæðist Þóra hress og fjörug eins og hún hefur verið síðan og verður vonandi lengi enn. Árið 1913 fæðist Óskar en hann dó af slysförum í Landsmiðjunni í Reykjavík 1941. Svo fæðist ég 1915 eins og áður er getið. Næst í röðinni er Rósa fædd 1918 og Jóhanna 1920 og erum við því fjögur sem tökum þátt í þessum fagnaði ásamt eftirkomendum okkar og tengdafólk, sem sagt niðjum Þorsteins og Þórunnar á Sléttaleiti. En svo ég ljúki við að segja frá síðustu ábúendum á Sléttaleiti þá er þess að geta að búskap þeirra pabba og mömmu lauk 1935 og við fluttum á Höfn.
Þá tóku við búskap á Sléttaleiti síðustu ábúendur jarðarinnar Sveinn Einarsson og Auðbjörg Jónsdóttir en þau höfðu búið í 2 ár í Sandfelli í Öræfum. Þau Sveinn og Auðbjörg hættu búskap á Sléttaleiti árið 1951 og með því lauk 123 ára búskaparsögu Sléttaleitis og ábúendur voru á tímabilinu 14 að tölu og lengst höfðu þau Þorsteinn og Þórunn búið þar í 27 ár og næst lengst Ragnhildur Þorsteinsdóttir í 22 ár.
Helstu heimildir
Byggðarsaga Austur Skaftafellssýslu
Þá var öldin önnu
Töfrar liðins tíma Steinar í Suðursveit eftir Torfa Þosteinsson