Ekra

Um Ekru

Í Borgarhöfn voru flest 12 býli í byggð á sama tíma samkvæmt Sóknarmannatali Kálfafellsstaðar, en 15 býli hafa verið skrásett þar ef með eru talin svokölluð húsmannsbýli.[1][2] Í Borgarhöfn eru margar heillegar bæjartóftir en ofan í þær voru byggð útihús á síðari tímum þegar ábúendum fækkaði. Ekra er eitt þessara býla sem stóð efst í byggðahverfinu undir Borgarhafnarfelli, rétt vestan Suðurhúsa ofan við Lágatún.[3] Um Ekru, segir Jóhanna Stefánsdóttir frá Neðribæ í Borgarhöfn, skráð í vettvangsferð um svæðið 30. apríl 2003: „Ekra er þrjár tóftir, þar bjó síðast Bjarni Runólfsson á Kálfafelli. Tóftirnar voru endurbyggðar, þar eru miklar hleðslur, það kviknað í þessu út frá sinu og brunnu verkfæri.[4] Í byggðasögu segir að Ekra hafi verið kirkjujörð.[2] Þar segir einnig að kirkja hafi verið í Borgarhöfn til forna. Máldagar frá 1342 og 1397 vitna til um Borgarhafnarkirkju og einnig máldagar frá 1583, en kirkjan er farin úr Borgarhöfn árið 1708. Ekki er vitað hvar kirkjan hefur staðið, en örnefni austan og neðan við Lækjarhús gefa vísbendingu um mögulega staðsetningu, s.s. Kirkjutún og Kirkjusteinar, sem voru hellusteinar í gangstétt.[2]

Lítið sem ekkert er vitað um upphaf byggðar á Ekru í Borgarhöfn og eru heimildir misvísandi um ábúendur þar fram til ársins 1875. Er það vegna þess að prestþjónustubækur og sóknarmannatöl Kálfafellsstaðar frá árunum 1840 – 1890 tilgreina ekki nöfn á býlum í Borgarhöfn. Þekktasti ábúandi Ekru er Guðmundur Guðmundsson f. 1841. Hann var fæddur í Borgarhöfn, bjó um tíma á Fagurhólsmýri í Öræfum en flutti aftur að Ekru í Borgarhöfn árið 1878 með fyrri konu sinni Sigríður Bjarnadóttir, f. 1836.[1] Þórbergur Þórðarson skráði, að Sigríður hafi verið heilsulítil. Einhverju sinni hafi maður hennar viljað viðra rúmföt en hún talið úr því, volað nokkuð og sagt, að lífið væri svo stutt, að ekki tæki því að vera að viðra fötin. Þá svaraði Guðmundur: „Maður á alltaf að lifa, eins og maður ætti aldrei að deyja.”[5] Seinni kona Guðmundar var Bergljót Brynjólfsdóttir. Þórbergur Þórðarson skráði um Guðmund: „Hann hafði verið á hákarlajagt, sem séra Þorsteinn á Kálfa­fellsstað átti hlut í og gekk frá Djúpavogi. Eftir það var hann stundum kallaður Jagtar-Gvöndur til aðgreiningar frá öðrum Gvöndum. – Guðmundur var mikill maður vexti, stilltur í framkomu, harðgreindur, frumlega orðhagur og orðheppinn, kaldhæðinn og meinyrtur, þegar hann vildi það við hafa.“[5]

Bjarni Runólfsson síðar bóndi á Kálfafelli og kona hans Steinunn Jónsdóttir voru síðustu ábúendur á Ekru í Borgarhöfn. Þau fluttu að Kálfafelli árið 1903. Síðan hefur ekki verið búið á Ekru, en hálf jörðin lögð undir Suðurhús og hinn helmingur undir Lækjarhús.[2]

Heimildir

[1]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Sóknarmannatal 1849 – 1879. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is
[2]  Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó.
[3]  Stefán Einarsson (1961). Örnefnaskrá fyrir Borgarhöfn. Heimildarmaður: Skarphéðinn Gíslason á Vagnstöðum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
[4]  Jóhanna Stefánsdóttir frá Neðribæ í Borgarhöfn. Viðtal við Þorbjörgu Arnórsdóttur 30. apríl 2003.
[5]  Þórbergur Þórðarson, (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning.