Ítarefni

Einbúinn í Kambtúni

Hann var alltaf kallaður Matti, en hét fullu nafni Karl Matthías Sigurðsson fæddur 30. október 1887. Hann átti heimili á Skálafelli en var búinn að vera á ýmsum stöðum. Hann hóf búskap í Kambtúni 1934 er foreldar okkar, Ólafur Gísalson og Sigríður Björnsdóttir, leyfðu honum að byggja sér bæ og útihús í landareign sinni, nánar tiltekið í hvammi vestan við Hestgerðiskamb er nefnist Kambtún. Hann nefndi bæ sinn Hvamm. Fjárhús og íveruhús voru byggð í sömu tóft en skilið á milli og var járn á þaki timburþil. Íveruhúsið var þiljað innan. Sveitungarnir hjálpuðu honum við að byggja húsin en móðir okkar eldaði matinn handa þeim og borðuðu þeir heima hjá okkur en kaffi var þeim fært. Það gekk fljótt að byggja húsin og sannast þar að margar hendur vinna létt verk og fljótt var komin mynd á bygginguna og þak yfir. Í minningunni var alltaf gott veður í þá daga. Matti fékk til afnota túnblett sem nefnist Leynir og mýri er nefnist Remba. Er talið að góður sláttumaður rembdist við að slá það stykki á einum degi. Líka fékk hann lánaða slægjur á prestssetrinu á Kálfafellsstað og lá þá við í tjaldi meðan hann heyjaði þar.

Hann kom yfirleitt heim á nokkurra daga fresti til að sækja sér mat og var þá stundum orðið lítið til í tjaldinu. Var þá bætt úr því heima hjá okkur og var hann þakklátur fyrir það. Annars bjó hann vel að sínu, átti góðan kartöflugarð, réri stöku sinnum við sandana og notaði haustmatinn.

Þegar Matti var unglingur veikist hann af heilabólgu sem varð þess valdandi að hann missti heyrnina á báðum eyrum og bjó við þá fötlun upp frá því. Hann fór til Akureyrar að leita sér lækninga en hafði ekki erindi sem erfiði. Þá lærði hann fingramál og fékk kver með sér sem hægt var að læra það eftir og lærðu það margir eftir því til að geta gert sig skiljanlega, eða þá að skrifa. En hann hafði fullt mál og talaði kjarngóða íslensku og segja má að sumir hámenntaðir Íslendingar nútímans hefðu mátt taka málfar hans sér til fyrirmyndar. Þrátt fyrir þessa fötlun var hann oft glaður, gerði að gamni sínu og gerði grín að mönnum og málefnum og sá skoplegu hliðarnar á málefnum.

En því miður voru til menn sem notuðu sér fötlun hans til að stríða honum og æsa hann upp og þóttust skemmta sér og öðrum með því. Það var aldrei gert á okkar heimili og munum við að faðir okkar kom argur úr kaupstaðarferð yfir því hvernig menn létu, og sagðist hann hafa sagt þeim að þetta væri lítilmótlegt, þeir ættu heldur að taka til dæmis menn eins og sig fyrir eða þá einhvern þann sem ætti hægara með að verja sig.

Þegar Matti bjó í Kambtúni fékk hann sér geitur til að hafa mjólk. Þótti honum mjög vænt um geiturnar sínar og dekraði við þær. Þær hændust líka að honum og voru fljótar að hlaupa heim þegar hann kallaði á þær með sinni hvellu rödd. Þótt þær væru langt í burtu þá heyrðu þær ótrúlega vel. Honum þótti líka mjög vænt um kindurnar sínar og hrossin. Við minnumst þess hvað hann var niðurdreginn og dapur þegar hann kom og sagði að hryssan hans hefði kastað dauðu folaldi. Matti gekk vel um hey og munu fáir hafa gengið jafn snyrtilega um hey sín. Það sást aldrei strá á hlöðugólfinu. Þegar geiturnar stóðu geldar yfir veturinn vorum við stelpurnar oft sendar með mjólk til hans og fleira. Þá stakk hann oft að manni sykurmola í þakklætisskyni.

Matti bjó 10 ár í Kambtúni og taldi hann það hafa verið bestu ár ævi sinnar að vera þar einn og óháður. Hann var búinn að vera á ýmsum stöðum áður en hentaði það misvel. Það gerði útslagið á búskap hans að hann missti hestinn sinn og var hann á ýmsum stöðum eftir það. Síðast fékk hann lítið hús á Höfn. Hann átti erfiða elli. Hann varð sjóndapur og síðast blindur og endaði ævina á elliheimilinu Grund. Þar lést hann 2. febrúar 1961 og er hann jarðsettur í kirkjugarðinum á Höfn.

Jóhanna og Torfhildur Ólafsdætur ; Skaftfellingur 14. árgangur 2001 Menningarmiðstöð Hornafjarðar

Scroll to Top