Ítarefni

Einbúi

Það má teljast merkilegt að býli skuli hafa verið byggt í Einbúa árið 1877. Ef til vill hafa verið einhverjar tóftir þar áður og kletturinn borið nafnið Einbúi frá fyrri tíð enda stakstæður. Á þessum tíma voru allar hjáleigur staðarins niður í landinu komnar í eyði og ekki byggt aftur á þeim stöðum. Býlið virðist hafa verið öreigakot. Þeir sem settust þar að hafa ef til vill  miðað við að hafa lífsviðurværi af sjósókn frá Bjarnahraunssandi frekar en búskap og býlið því nefnt húsmannsbýli.

Bjarni Guðmundsson, fyrsti ábúandinn í Einbúa, var uppalinn í Borgarhöfn, sonur hjónanna Málfríðar Jónsdóttur (1813-1886) og Guðmundar Bjarnasonar (1809 – 1855). Hann var því kunnugur staðháttum. Foreldrar hans voru bræðrabörn, þau eignuðust fimmtán börn, flest dóu kornabörn eða fæddust andvana, aðeins sex þeirra komust til fullorðinsára. Guðmundur lést þegar Bjarni var 9 ára og þá tvístraðist fjölskyldan. Fyrri kona Bjarna var Guðrún Árnadóttir og dóu bæði börn þeirra skömmu eftir fæðingu. Guðrún dó í Einbúa úr lungnabólgu1878, þá 40 ára. Seinni kona Bjarna hét Steinunn Jónsdóttir (f 1845), þau bjuggu fyrst í Holtum en fóru þaðan til Vesturheims, að því er virðist með tvö ung börn. Einnig fóru til Vesturheims á svipuðum tíma systkini Bjarna, Jón og Oddný og ef til vill Guðný systir þeirra líka. Geta má þess að Oddný var vinnukona hjá Stefáni Eiríkssyni í Árnanesi en þaðan fóru margir til Vesturheims á þessum árum. Það hafa ekki verið mörg úrræði fyrir systkinin úr þessari fátæku fjölskyldu, sem lentu á sveit ung að árum, annað en flýja land í von um betra lífsviðurværi. Eftir 1860 flutti Málfríður móðir þeirra milli bæja sem vinnukona eða á sveit, en kom síðan til Bjarna sonar síns á Einbúa og fylgdi fjölskyldu hans eftir það. Hún lést í Holtum 1886, áður en þau héldu til Vesturheims og þá sennilega södd lífdaganna. 

Ekki var búið í Einbúa í átta ár þegar þar settust að Einar Sigurðsson og Hólmfríður Bjarnadóttir með fimm ung börn árið 1890. Yngst var Kristjana Einarsdóttir á fyrsta ári, amma Sighvatar Björgvinssonar fyrrv. alþingismanns. Þau hjónin komu af Mýrunum og virtust vera að leita sér að framtíðarbúsetu, búa því stutt á hverjum stað. Sigurður (1834-1898) faðir Einars var frá Brunnum, sonur Auðbjargar Sigurðardóttur og Einars Eiríkssonar. Hann var bróðir Guðnýjar ömmu Þórbergs Þórðarsonar. Einar ólst  upp á Lambleiksstöðum á Mýrum. Kona hans Hólmfríður var frá Landbroti í Vestur Skaftafellssýslu, ólst þar upp með móður sinni en síðar sem ómagi. Hún kom austur fyrir Skeiðarársand og fór á milli bæja sem vinnukona. Mikið barnalán fylgdi þeim hjónum.  Þau bjuggu aðeins í tvö ár í Einbúa, þar fæddist reyndar andvana barn þeirra, önnur börn þeirra komust öll til fullorðinsára. Þau  Einar og Hólmfríður fóru síðan aftur austur á Mýrar og bjuggu á Geirsstöðum og í Haukafelli. En þá lögðu þau af stað í lengra ferðalag, alla leið austur í Mjóafjörð með átta börn árið 1898. Þar dvöldu þau stutt við og fluttu síðan á Vestfirði, árið1901, fyrst til Tálknafjarðar, en bjuggu lengst af á Patreksfirði.  Afkomendur þeirra tala um að það hafi ekki þótt álitlegt þegar þessi stóra barnafjölskylda settist að fyrir vestan og talið að þau gætu vart séð fyrir sér. Önnur varð raunin og er kominn út af þeim mikill ættleggur, allt dugnaðarfólk, miklir verkalýðssinnar og baráttufólk fyrir betri lífskjörum alþýðu til handa. Margir afkomendur þeirra í þriðja og fjórða lið hafa leitað upprunans í Skaftafellssýslu og  komið við í Þórbergssetri á Hala að hitta ættingja og fræðast um bernskuslóðir forfeðra sinna.  [1]   
Um eða rétt fyrir aldamótin 1900 virðist vera að barnafjölskyldur eygi möguleika á öðru lífsviðurværi til framfærslu en að hokra á smábýlum við landbúnað og sjósókn frá hafnlausri strönd. Bændurnir í Einbúa eru greinilega fulltrúar þeirrar kynslóðar sem byrjaði að færa sig frá örbirgð og erfiðleikum í leit að betra lífi á fjarlægum slóðum.. 

[1]  Skráð af Þorbjörgu Arnórsdóttur; Heimildir; Þjóðskjalasafn Íslands(e.d.) Kálfafellsstaður, Prestþjónustubók 1847-1911 og Sóknarmannatöl 1849-1879; 1881-1888 og 1890-1905 . Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is