Á Sævarhólum í Suðursveit (nú er sú jörð í eyði) kom það fyrir dag einn um vetrartíma að veður var svo vont að ekki varð komist í eldhúsið til að kveikja upp eld. Það var útieldhús. Síðla um dagin lagði bóndi til að komast í eldhúsið til að ná hangikjöti handa fólkinu. Furðar hann á því að eldhúsið er opið en þegar hann kemur inn sér hann að bjarndýr liggur þar inni og hefur fætt af sér tvo húna og voru þeir að sjúga. Bónda sýndist dýrið mjög sultarlegt. Tók hann því eitt sauðarkrof og fleygði fyrir það. Át dýrið krofið með mikilli græðgi og sýndist honum það vilja meira. Þar var hrútur í eldhúsinu. Virtist honum það líta girndaraugum til hrútsins. Tók hann þá hrútinn og skar hann og fleygði skrokknum til dýrsins og át það hann með bestu lyst og sýndist bónda það þá vera í góðu skapi. Liðu svo þrettán dagar frá því að dýrið kom og fór það alltaf út á hverjum morgni og kom ekki aftur fyrr en undir kvöld. Var því gefin mjólk á hverjum degi og húnunum líka. Voru þeir þá farnir að ganga úr bælinu. Fjórtánda daginn er bóndi kom út var dýrið við bæjardyrnar og var þá ferðasnið á því og voru húnarnir með. Sýndist honum dýrið vanta eitthvað. Skar hann þá tvo sauði og hengdi þá saman á hornunum yfir hrygg dýrsins. Í því kom þar sonur hjónanna sem var ungur og áttu þau ekki annað barn. Dýrið horfði mikið á hann áður en það fór. Morguninn eftir lágu þrettán stórir selir dauðir við bæjardyrnar og var álitið að dýrið hefði flutt þá þangað. Var þá hafís lengi búinn að vera landfastur en þennan dag losnaði ísinn frá landi og var álitið að dýrið hefði vitað það fyrir.
Mörgum árum síðar var það eitt sinn að sonur hjónanna gekk á fjöru. Var hann þá uppkominn maður. Hafís var þá landfastur. Hann sá sel úti á ísnum nokkuð frá landi og vildi freista að ná honum. Gekk því út á ísinn en meðan hann var að fást við selinn úti á ísnum losnaði ísinn sundur og vissi hann ekki fyrr til en hann stóð á ísspöng sem algerlega hafði losnað frá. Vindur stóð af landi og rak því spöngina til hafs. Í þessu sér hann hvar bjarndýr eitt mikið kemur eftir ísnum sem landfastur var, og er það kemur móts við hann, fleygir það sér í sjóinn og syndir yfir að spönginni sem hann stóð á. Varð hann þá smeykur og bjóst við að dýrið mundi rífa sig í sundur en er það nálgaðist sýndist honum það allt annað en grimmilegt. Stansaði það við ísbrúnina þar sem hann stóð og hagræddi sér, eins og það vildi að hann kæmi á bak sér og þar sem hann sá hvort sem var enga lífsvon, þá tók hann það ráð að fara á bak dýrinu. Hristi það sig svo í annað sinn og gat hann þá vel setið. Lagði það þá til lands og var langur vegur sem ísspöngin var rekin. Skilaði það honum á land og fór svo sína leið. Nóttina eftir dreymdi bóndann, föður hans að bjarndýrið kæmi til sín og segði að nú hefði það loksins getað launað honum fæði og húsaskjól með því að bjarga syni hans úr lífsháska.
Guðmundur Jónsson; Skaftfellskar þjóðsögur og sagnir; Skrudda 2009