Haukafell var einn af Fjallabæjum á Mýrum og stóð rétt austan Fláfjalls, undir heiðarhálsi er tekur nafn af bænum. Heimild um búsetu í Haukafelli nær aftur til 1483, þegar Magnús biskup í Skálholti geldur klaustrinu í Kirkjubæ jörðina í skiptum fyrir jarðir í Breiðdal.[1] Haukafell átti lítil tún, hafði engan útheyskap en þótti góð útigangsjörð. Landareign jarðarinnar er mest fjalllendi, víðáttumikið og gott beitiland.[3] Smáskógarkjarr liggur nærri túninu og lítið eitt stærra er frá bænum dregur en á þetta kjarr var sauðfé beitt þegar snjóa gerði. Engin engjalönd tilheyrðu jörðinni en bithagi var sleginn á Fláfjallsmýri og í höfðanum fyrir ofan bæinn. Oft var sóttur heyskapur út í Grænukeldu í Holtalandi.[3] Haukafell átti rekafjöru fyrir Borgarlandi, sem á móti átti skógarítak í Borgarskógi á Kolgrafardal.[2]
Af heimildum að dæma var ábúðartími Haukafells ekki samfelldur. Árið 1703 var jörðin í ábúð en getið sem eyðijarðar Þykkvabæjarklausturs í jarðatali frá 1709.[4][2] Næstu búsetu er ekki getið fyrr en 1816 og hélst hún óslitin til 1936. Það ár fór Haukafell í eyði og var lögð undir Rauðaberg.[3]
Haukafell er eitt af mörgum bæjarstæðum á Mýrum sem þurfti að færa vegna ágangs Mýrajökla. Upphaflega stóð bærinn vestan undir Haukafellshálsi við minni Kolgrafardals. Um 1880 var ógnvaldurinn í vestri, Fláajökull í örum framgangi. Á þeim tíma náði jökullinn um 2 km fram fyrir Fláfjall og fjarlægðin frá jökuljaðri að heimatúni Haukafells var innan við 300 metrar. Svo nálægt náði jökullinn að 7 ára drengur gerði sér að leik að kasta smásteinum frá túninu á jökulinn. Þá var bærinn fluttur austur fyrir háls, þangað sem hann stóð síðan, efst í túninu upp undir fellinu.
Enn sést til fjölda minja í Haukafelli sem vitnisburð um búsetuna þar. Á gamla bæjarstæðinu vestan við Haukafellshálsinn eru leifar af bæjartóftum. Þær standa yst á brún gamla túnsins nærri farvegi Kolgrafardalsár, við minni dalsins. Af ummerkjum má ráða að áin hafi grafið undan húsunum í vatnagangi í gegnum áratugina sem liðnir eru frá því að gamla bæjarstæðið var yfirgefið. Í skóglendum hvammi norðan við bæjarrústirnar stendur torfhlaðin rétt. Suðaustan við Haukafellshálsinn er yngra bæjarstæðið og þar standa enn stæðilegar tóftir bæjarhúsanna sem voru yfirgefin á fjórða áratug 20. aldar.
Í grein sinni sem birtist í Skaftfellingi árið 2004, lýsir Unnur Kristjánsdóttir frá Lambleiksstöðum á Mýrum bæjarhúsunum í Haukafelli:
„Er horft var þar heim að sumri í júní eða júlí var brekkan ofan við bæinn blá af bláklukkum. Austast í húsaröðinni var íbúðarhúsið, þverhús í tóft, það er húsið sem snýr hlið fram á hlað. Þá var breitt sund, þar næst var hlaða og síðan í röð tvö hús sem mun hafa verið gamli bærinn, baðstofa og fjós. Hlaðið gaflhlað hefur verið fyrir framan bæði húsin en einar dyr fyrir miðju og gengið í húsin sitt til hvorrar handar þegar inn úr þeim var komið. Þessi hús hygg ég að hafi verið notuð fyrir geymslur eftir að þverhúsið var byggt. Næst kom skemma og vestast eldiviðargeymsla. Vestan við hana er garðsbrot og niður af því lítill kofi sem ég sé ekki hvaða hlutverki hefur gegnt. Kálgarður var framan við bæinn eins og tíðkaðist á þeim tíma. Annar kálgarður var í brekkunni vestur undir Hálsinum.
… Það var algengt á Mýrum að bæir væru fluttir til undan vatnaágangi en þetta er eina tilfellið sem ég veit til að bær hafi verið fluttur vegna þess að jökullinn skreið alveg heim undir bæjarhlað.“[5]
Austar í túninu var hesthús sem nýtt var til að hýsa kýrnar á sumrin. Annað hesthús stóð vestur undir Hálsinum og niður undir aurnum er grjóthlaðin rétt. Inn í þessa rétt var undarlega erfitt að reka fé og var reimleikum kennt um.[5]
Heimildir:
[1] Íslenskt fornbréfasafn. VI. bindi 1245-1491. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1900-1904.
[2] Jón Þorkelsson (1918-20). Jarðabók Ísleifs sýslumanns Einarssonar um Austur- Skaptafellsþing, er hann gerði 1708 og 1709 í umboði Árna Magnússonar. Blanda. Fróðleikur gamall og nýr. I. Bindi (bls. 1-38). Reykjavík: Sögufélagið.
[3] Kristján Benediktsson (1972). Byggðasaga Mýrahrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit, (bls. 11-127). Reykjavík: Bókaútgáfa GuðjónsÓ.
[4] Manntal á Íslandi árið 1703, (1924-1947). Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Reykjavík: Hagstofa Íslands.
[5] Unnur Kristjánsdóttir (2004). Haukafell. Skaftfellingur 17. árg. Bls. 105-109.