Sögn Elínar Guðmundsdóttur og fleira fjörgamals fólks þar eystra
Fyrir ævalöngu var vegur frá Möðrudal á Fjöllum og þeim bæjum yfir Vatnajökul og niður í Staðarhálsa, skóglendi innar af Staðardal í Suðursveit eystra. Þar er nú jökull hár. Því voru þessar ferðir tíðkaðar, að aflasælt var um þær mundir undir Hálsakletti og víðar þar í grennd. Komu þangað að norðan ár hvert margir sjóróðrarmenn, og áttu þeir búðir sunnan undir Hestagerðiskambi, er Kamptún nefnast. Sjást þar enn greinileg merki um tóftir, og þær nokkrar að mig minnir. Ég reið þar oft um í æsku. Annar flokkurinn átti sér sjóbúðir í Borgarhafnarhálsum, úti á fjörunni. Ógjörla man ég, hvort það sér nú merki búða, því það er ekki á alfaravegi, en stendur við sjó. Urðu þeir úr Kamptúni að fara sjóleið yfir Hestgerðislónið, er þeir fóru til sjávar.
Af líferni þessara manna eru ennþá, eftir svo margar aldir, margar ljótar sögur, og er orðið að máltæki, ef einhverjum er ögrað skemmtunar: ,,Komdu í Kamptún, ef þér þykir langt.” Var þetta orðatæki Kamptúnsbúa við lagsbræður sína í Hálsum, og lék orð á, að meðal þeirra ríkti alls konar illur lifnaður, lauslæti, skeytingarleysi og illur munnsöfnnuður. Leit fólk á þá eins og Sódómamenn, og var því spáð, að illar mundu verða þeirra, endalyktir, enda varð sú raunin. Ógjörla man ég nú eitthvert atvik, sem átti að hafa skeð síðasta morguninn, er þeir lifðu, hvort þeir rifust og flugust á og vörðust með skinnbrókunum. En einn góðan veðurdag reru þeir allir. Kom þá ofsaveður mikið og rauk í brim, en lending er þar mjög ill fyrir berum söndum. Fórust þeir þar allir nema prestur einn, Bjarni að nafni, góður maður. Hann komst af og upp í hraun það, sem síðar ber nafn eftir honum og heitir Bjarnahraun. Það er nú æði langt frá sjávarmáli, og flæðir naumast þangað í mesta hafróti. Það er grasi vaxið að ofan. Lengi síðan þóttust skyggnir menn sjá þá félaga berjast með skinnbrókum sínum í Kamptúni. Þeir sem drukknuðu minnir mig, að ættu að hafa verið um 80. Eftir þetta mikla hrun lögðust allar norðlendingaferðir af. Vegurinn lagðist þá og algjörlega af og gleymdist. Þó þóttust elztu menn hafa heyrt, að hestaskeifa hefði fundizt uppi á jöklinum.
Þegar faðir minn var á staðnum, hóf hann með mörgum mönnum för upp á jökulinn og könnuðu þeir hann norður eftir. Hrafn kom á móti þeim að norðan, og vildu fylgdarmennirnir ekki fara lengra, líklega af hræðslu við útilegumenn. Þar af hefur nú dr. Watts nýlega farið.
Torfhildur Hólm Þorsteinsdóttir ; Þjóðsögur og sagnir; Almenna bókafélagið mars 1962