Ítarefni

Árni á Sævarhólum

Sögn Elínar Guðmundsdóttur, sem dó um áttrætt, en henni sagði gamalt fólk þar eystra, sem dó fjörgamalt í ungdæmi hennar, og átti þessi saga að hafa gerzt í ungdæmi foreldra þeirra, sem kunna að ættfæra fólkið gjörsamlega og mundu öll nöfnin. Þá var allsherjaþing á Þingvöllum og líflát tíðkuð.

Á Sævarhólum í Suðursveit í Austur-Skaftafellssýslu bjó bóndi, sem Árni hét. Hann var orðlagt valmenni, stillingarmaður mesti og kom hvívetna fram til hins bezta. Hann þótti vel greindur og vel menntur, að þeirrar tíðar hætti. Hann var kvæntur, en búin er ég að gleyma hvað konan hét. Hún var talin góð kona, en lítilsigld, og bar lítið á henni. Ekki er ótrúlegt, að hún hafi verið við aldur og hann átt hana til fjár, því þau áttu engin börn. Þó var þess ekki getið. Vinnukonu höfðu þau hjón, æði mikla fyrir sér, og sat hún mjög svo ofan á húsfreyju. Hann gaf sig ekki að, en var þó konu sinni góður. Svona liðu mörg ár og lék mikill orðrómur á, að of vingott væri með bónda og vinnukonunni, og þótti það hans eini löstur vera. Nokkur ár í röð var kvis á, að hún mundi ekki fara einsömul. Var það helzt haft eftir förufólki, er kom að Sævarhólum, því að þar var snauðu fólki matur heimill, meðan til var. Einhverju sinni kom þessi fylgikona Árna að Kálfafellsstaðarkirkju, og þóttist þá söfnuðurinn hafa orðið þess var, að hún færi með barni. Nálega á hverju ári var kvis á þessu, en þar sem ekkert kom í ljós og stúlkan alltaf frísk, þegar til fréttist, var þessu ekki gaumur gefinn. Konan var jafnan heima og bar lítið á henni, enda eru Sævarhólar umflotnir af vötnum og standa sérstakir svo að segja á sjávarbakkanum, og eru þeir mjög úr almannavegi. Þar af flaut, að heimilishagur þessa fólks var á fárra viti, nema þegar Árni var á mannamótum, sem oft bar við. Gengdu konurnar þá störfum heima.

Þess er getið, að Árni ætti gráan hest, nafntogaðan fyrir fegurð, stærð og flýti, sem hann unni mjög. Það bar við einn vetur á Sævarhólum, að drengur fékk þar gistingu. Frost voru mikil og fannfergi. Undir rökkrið, þegar drengurinn fór, sá hann ekki stúlkuna, en hann sá Árna stíga á bak Grána sínum og ríða eitthvað í burtu. Konan var fálát mjög. Bað hún drenginn, þegar hann fór, að koma við, mig minnir heldur á Skálafelli en Smyrlabjörgum, og biðja hreppstjórann, sem þá var þar, að finna sig um kvöldið með tveimur eða þremur mönnum. Bað hún drenginn að flýta sér, og fór hann síðan.

Seinna um kvöldið kom hreppstjórinn og menn með honum. Var þá mjólk í brjóstum stúlkunnar, en hún meðgekk ekki, fyrr en hart var að henni gengið, að hún hefði það kvöld fætt barn í dul, og hefði Árni riðið með það vafið í klút á Grána sínum. Litlu síðar kom Árni heim. Meðgekk hann þá, að hann hefði fyrirfarið barninu og kastað því niður fyrir svonefnda Næfurhólanöf. Einnig meðgekk hann, að þau hefðu átt sjö börn saman og hann fyrirfarið þeim upp á sama hátt. Var hann þá tekinn og settur í varðhald, og þau bæði, en búið tekið upp. Árni iðraðist strax verksins mjög og sýndi einlæg iðrunarmerki, en hún alls engin, enda var almannarómur, að hún hefði hvatt hann til þessa ódæðis með öllu móti, þar til hann var orðinn blint verkfæri hennar. Í þá daga sagðist mjög mikið á öllum hjúskaparbrotum, og lokkaði sú dæmalausa harka margan út í eymd og svívirðingu, sem hér átti sér stað. – Ekki er þess getið, hve lengi þau sátu í varðhaldi, en það var lengi haft í minni, hve aumkunarlega Árni barst af, ekki sökum tilvonandi hegningar, heldur vegna ódáðaverksins, sem hann nú skildi til fulls.

Torfhildur Hólm Þorsteinsdóttir ; Þjóðsögur og sagnir Almenna bókafélagið mars 1962