Ítarefni

Sléttaleiti

Haustið 2003 var reist sumarhús á Sléttaleiti í Suðursveit. Þar hafði ekki verið byggt til íbúðar síðan 1940-41 að foreldrar mínir, Auðbjörg Jónsdóttir og Sveinn Mikael Einarsson, síðustu ábúendur þar, réðust í að byggja steinsteypt hús með hjálp sveitunga og vina, eins og þá og áður tíðkaðist. Aðalsmiðir við húsið voru bræður Auðbjargar, Sigjón og Guðmundur, bændur í Borgarhöfn.
Í húsinu, á neðri hæð, var eldhús að sunnan en vetrarfjós að norðan.. Gengið úr eldhúsi upp stiga í nyrðra herbergi uppi og úr því í syðra herbergi sem var svefnherbergi foreldra minna og mitt, en í því nyrðra var svefnherbergi Bjarna bróður míns og um leið vinnuherbergi með prjónavél og saumavél móður okkar. Húsið var steypt úr sementi og fjörumöl, sem ekið var yfir lónið á hestakerru talsvert austan bæjar haustið fyrir byggingarsumar og geymd yfir veturinn í tyrftum haug, svo hún fyki ekki, síðan flutt í kerru vestur í brekkuna þar sem húsið var reist á gamla bæjarstæðinu sem hafði verið á sama stað frá því bærinn var fluttur frá Steinum, dálítið austar og neðar, að Sléttaleiti árið 1830 og þar var svo búið óslitið til 1951 að foreldrar mínir fluttu þaðan sem síðustu ábúendur Sléttaleitis. Máttarviðir í húsinu voru að mestu úr stóru tré sem rak á Sléttaleitisfjöru um þetta leyti, flutt á haldi yfir lónið og heim að bæ, þar sem foreldrar mínir söguðu það passlega niður í byggingu hússins með stórviðarsög lánaðri frá Sigjóni í Borgarhöfn. Steypan var hrærð í fótstiginni tunnu sem var einhverskonar félagseign. Árið eftir (1941) var byggður skúr við húsið. Í honum var inngangur í húsið, lítil forstofa með dyrum inn í eldhúsið, svolítil gestastofa og búr með dyrum inn í fjósið, en úr því voru útidyr til austurs. Yfir sumarið voru kýrnar hafðar í hesthúsi vestar í túninu.  Þegar foreldrar mínir hættu búskap á Sléttaleiti seldu þau jörðina, án húsa, nábúum sínum, bændum á Breiðabólsstað, Hala og Gerði og hafa þeir síðan haft hana undir, ræktað hana og nytjað til búskapar.

Nú víkur sögunni aftur til sumarsins 1935, en þá fluttu foreldrar mínir frá Sandfelli í Öræfum að Sléttaleiti. Þá hafði nýverið fallið skriðuspýja inn á túnið og ekkert með það, heldur teknar skóflur og hjólbörur og skriðunni mokað burt. Við systkinin tvö mjög ung, ég fædd 1932 að Reynivöllum í Suðursveit, þar sem foreldrar mínir byrjuðu að búa, og Þorgils Bjarni fæddur 1934 í Sandfelli. Þetta sumar var hjá okkur drengur um fermingu, Einar Bragi, síðar kunnur rithöfundur, sonur Borhildar systur pabba og Sigurðar Jóhannssonar skipstjóra og bjuggu þau á Eskifirði. Hann lýsir vel gamla torfbænum sem við bjuggum í fyrstu 5 árin á Sléttaleiti og gef ég honum orðið:
Að Sléttaleiti var á þessum árum lítill torfbær sem sneri bustum út að sjó og féll kurteislega að landslaginu; var því samgróinn eins og þúfurnar og grjótið. Framundan bænum var brattlent tún niðrað þjóðbrautinni en neðan vegar mýrlendar engjar alveg nirðrað lóni sem liggur innan fjörukambs með allri sveit. Utanvið fjöruna er hafið, sem einatt svarrar illskulega við strönd og aldrei verður svo rótt að ölduniður heyrist ekki heim á bæi.
Baðstofa með skarsúð var yfir fjósi. Þær kölluðust fjósbaðstofur og þóttu hlýjar, en lyktin ekkert nasayndi. Hennar gætti þó lítt á sumrin. Við sváfum öll í baðstofunni en hvert í sínu rúmi. Ég hafði ekki áður sofið í herbergi með hjónum og var kominn svo til vits að ég kveið því í aðra röndina. En þegar hálfur mánuður var liðinn án þess nokkuð bæri til tíðinda, sló ég frá mér öllum áhyggjum og hugsaði að líklega hefðu þau ákveðið að eignast ekki fleiri börn og látið ævintýrum lokið fyrir lífstíð. Svo viss var ég í minni sök, að þegar ég einn ágústmorgunn varð þess var að frændi minn steig fram úr rúmi konu sinnar, kom mér ekki önnur skýring í hug en ungabarnið hefði verið eitthvað óvært um nóttina og Sveinn af umhyggjusemi fært sig yfir til að rugga vöggunni svo Auðbjörg gæti notið næturhvíldar.
Næst fyrir vestan baðstofuna var eldhús með skellihurð fyrir til baðstofu. Undir baðstofustiganum var innangengt úr göngunum í fjósið. Flórinn var lagður hellum, sm voru orðnar svo misgengnar að rekan vildi stöðugt stangast við brún þeirra. Mér fannst því leiðinlegt að moka flórinn. Vestrúr eldhúsinu að norðan var gengið í búr, sem líka var með moldargólfi. Þar voru hillur undir mjólkurílát. Skilvinda var ekki á bænum. Mjólkin var látin setjast í trogum eins og lengi hafði tíðkast á Íslandi og rennt undan með því að halda annari hendi fyrir rjómann yfir einu horni trogsins. Þetta virtist vel gefast, nema einni og einni flugu hafi orðið hált á ásókn í rjómann. Henni var það þá mátulegt. Vestanvið eldhúsið var dálítil gestastofa alþiljuð innan með panil og gengt í hana af hlaði og úr eldhúsi muni ég rétt. Auk þessara húsa voru auðvitað skemma og peningshús eins og gerist á sveitabæjum en ég get ekki nema umgjörðar um mannlíf okkar fimm.
Framanvið bæinn var hlaðin steinstétt, neðan hennar dálítill kálgarður. Vatn hafði verið lagt inn í bæ frá tærri lind niðri á túni. Þar var komið fyrir vatnshrút, sem dældi vatninu með dularfullum hætti af eigin afli upp í móti í tunnu sem stóð í eldhúsinu. Þessir hrútar voru þarfaþing en betra að gleyma ekki að stöðva þá áður en tunnan var orðin full. Það kom einu sinni fyrir hjá okkur og þá var moldargólfið í eldhúsi Auðbjargar húsfreyju ekki frýnilegt á að líta. En hún tók því sem öðru andstreymi með kristilegu þolgæði, jós útyfir þröskuldinn og þurrkaði síðan eðjuna með ösku. Eftir fáa daga fannst okkur gólfið orðið fallegra en fyrir syndaflóðið; steingráir blettir á moldbrúnum grunnfleti gáfu því ljóðrænan blæ, sem lyfti sálinni í hæðir. Þó höfðum við á okkur meiri andvara eftir þetta, ef hrúturinn var í gangi.
Þetta var lýsing Einars Braga.
Nú er að lýsa tildrögum að áðurnefndu sumarhúsi. Á fyrstu eldriborgaraárum mínum fór ég að hugleiða að gaman gæti verið að láta gera upp gömlu steintóftina hússins, sem foreldrar mínir reistu og búin var að standa af sér allskonar veðurlag í brattri hlíðinni í hartnær 53 ár. Þegar við fluttum af staðnum 1951 rifum við úr húsinu allt lauslegt efni og nýttu foreldrar mínir það til uppbyggingar og lagfæringa á Dynjanda í Nesjum og á Höfn, en þangað fluttu þau og við systkinin tvö og bjuggum eftir það öll lengst af á Höfn.
Sérstakt var hvað gamli skorsteinninn í tóftinni hélt sér vel og gnæfði upp úr henni eins og hattur á hefðarmanni. Krakkar kölluðu tóftina „Karlinn með hattinn“. Nú bað ég dómbæra menn að huga að uppbyggingu tóftarinnar og ákváðu þeir að hún væri ófær til þess sökum ellihrumleika. En nú var ég ákveðin í að láta reisa hús á gamla bæjarstæðinu og þá varð niðurstaðan sú að ryðja um gömlu tóftinni og byggja nýtt timburhús í mjög líku útliti og gamla húsið fyrir erfðafé, sem ég fékk, eftir foreldra mína, eiginmann og bróður, sem öll létust á árunum 1988-96, og næstum á sama stað. Húsið var svo reist haustið 2003 eins og áður sagði.
Nú gerðist það að ég sagði í spaugi við hann Einar Braga rithöfund, frænda minn, að gaman gæti verið að hafa sýnishorn af ritverkum hans í nýja húsinu og hann tók því á þann ótrúlega hátt að ég fékk nú hverja bókasendinguna á fætur annarri frá honum þar til allt hans ritsafn var komið og talsvert meira af merkum ritverkum og með þessu sendi hann tvo veglega skápa undir bækurnar og er þetta nú allt á Sléttaleiti. Mér finnst hann hafa sýnt þessum stað, og reyndar Suðursveit allri, sérstaka tryggð og virðingu. Einar Bragi var fæddur á Eskifirði 7. apríl 1921, dáinn 26 mars 2005, þá til heimilis að Suðurgötu 8 Reykjavík. Hann var ráðvandur og góður drengur og afkastamikill og traustur rithöfundur og þýðandi. Blessuð sé minning hans. Hann skrifaði:
Ættartengsl Jóhönnu Guðrúnar Sveinsdóttur við Sléttaleitistorfuna standa djúpum rótum. þar er fyrst til að taka að austasti bær fyrir sunnan Sand hét áður í Steinum, stóð austan undir Steinafjalli þar sem enn sér til tótta. Steinar voru 12 hundraða jörð, hafði frá fornu fari verið eign Þykkvabæjarklausturs en komst á 16. öld í eigu Kálfafellsstaðarkirkju. Hún var eina jörðin fyrir sunnan Sand, sem ekki var bændaeign. Um 1780 settust að búi í Steinum Jón bóndi Jónsson og kona hans Rannveig Jónsdóttir sem síðar var löngum kennd við annan bæ í Suðursveit og kölluð Rannveig á Felli. Hún átti að ýmsu leyti skrautlega ævi, sem ekki verður rakin hér, heldur vísað til ritverks míns Þá var öldin önnur (2. bindi) þar sem allýtarlega er fjallað um hana og elskhuga hennar Svein Sveinsson (f. um 1751). Einungis skal þess getið að hún átti með Sveini 3 syni, sem allir hétu Sveinn. Einn þeirra (f. 1791) kvæntist Sigríði Bjarnadóttur úr Borgarhöfn, bjuggu lengst að Hofi í Öræfum. Meðal dætra þeirra var Rannveig húsfreyja að Hofsnesi í Öræfum, móðir Einars Pálssonar bónda í Gamlagarði í Borgarhöfn, föður Sveins M. Einarssonar síðasta bónda á Sléttaleiti (1935-51), föður Jóhönnu Guðrúnar, sem nú hefur endurreist staðinn.
Byggð tók af í Steinum í miklum vatnavöxtum í Kaldakvísl í byrjun júlí 1829. Síðastur bænda þar var Ingimundur Þorsteinsson bónda á Felli Vigfússonar. Hann byggði sér nýjan bæ árið 1830 að Sléttaleiti. Ingimundur var móðurbróðir Auðbjargar Sigurðardóttur á Brunnum, móður Benedikts Einarssonar, bónda á Sléttaleiti, föður Guðnýjar, móður Sveins M. Einarssonar, föður Jóhönnu Guðrúnar. Fyrsti bóndi á Sléttaleiti var þannig langalangömmubróðir síðasta bóndans þar.
Árið 1835 búa á Sléttaleiti Jón Eyjólfsson og Elín Guðmundsdóttir. Jón var sonur Rannveigar á Felli og þannig langafabróðir Sveins M. Einarssonar, föður Jóhönnu Guðrúnar. Árið 1874 komu að Sléttaleiti Benedikt Einarsson frá Brunnum og kona hans Ragnhildur Þorsteinsdóttir skipasmiðs frá Steig í Mýrdal Sigurðssonar. Þorsteinn kom með þeim að Sléttaleiti og lést þar 1890. meðal barna Benedikts og Ragnhildar var Guðný, móðir Sveins, föður Jóhönnu Guðrúnar. Ragnhildur og Benedikt bjuggu á Sléttaleiti til 1884, fóru þá að Skálafelli, en þar varð hann bráðkvaddur á engjaslætti sama ár. Árið eftir flutti Ragnhildur aftur að Sléttaleiti og bjó þar til 1898. Hún giftist á ný 1887 Þórði Arasyni frá Reynivöllum, en missti hann 1894. Eiginmenn hennar, Benedikt og Þórður, voru systkinasynir.
Árið 1903 komu að Sléttaleiti Hans H. Wium og Lússía Þorsteinsdóttir ljósmóðir. Hans og Einar Pálsson föðurafi Jóhönnu Guðrúnar voru bræðrasynir. Þau bjuggu þar til 1908, en fóru þá að Gerði.
Árið 1908 tóku við búi á Sléttaleiti Þorsteinn Jónsson og Þórunn Þórarinsdóttir. Steinunn Stefánsdóttir móðir Þorsteins var hálfsystir Benedikts Einarssonar. Þorsteinn og Guðný, föðuramma Jóhönnu Guðrúnar, voru því systkinabörn. Þorsteinn og Þórunn bjuggu á Sléttaleiti til 1935. Þá um vorið keyptu foreldrar Jóhönnu Guðrúnar, Sveinn M. Einarsson og Auðbjörg Jónsdóttir, jörðina og hófu þar búskap. Þegar þau fluttu þaðan 1951, fór Sléttaleiti í eyði. (Frasögn Einars Braga).
Nú má ég til að geta aðeins um smiðjuna á Sléttaleiti þaðan sem fleiri en einn segjast hafa heyrt hamarshögg þó enginn lifandi maður sé þar inni. Þegar foreldrar mínir yfirgáfu staðinn óskaði faðir minn þess við kaupendurna að þeir héldu smiðjunni við svo hún mætti standa þarna áfram til minja um gömlu smiðina sem þar höfðu lagt misjafnlega gjörva hönd á smiðsverk, eins og gengur. Merkastur þeirra er eflaust Þorsteinn Sigurðsson skipasmiður frá Steig og Breiðuhlíð í Mýrdal sem dvaldi mikið á Sléttaleiti og dó þar 1890. hann var langalangafi minn í föðurætt.
Nú fór svo að í amstri daganna varð viðhald smiðjunnar útundan hjá kaupendunum og féll þekjan niður. Einar Bragi var hér á ferð um svipað leyti og hitti föður minn hér á Höfn og kom þetta til tals hjá þeim. Einar Bragi vildi leggja pabba lið, hitti Suðursveitunga að máli og hvatti þá til að verða við ósk hans um að reisa smiðjuna við. Þeir tóku þessu vel, söfnuðu liði og reistu smiðjuna vel við. Steðji var fenginn hjá Ragnari í Skaftafelli, sem hann taldi að Þorsteinn frá Steig hefði átt og smíðað á. Einnig lagði Ragnar til traustan fót undir steðjann, rekinn á Skaftafellsfjöru. Einar Bragi og Torfi Steinþórsson á Hala komu þessu traustlega fyrir í smiðjunni og pabbi lagði til fýsibelg sem komið var fyrir. Ekki löngu seinna gerðist það að steðjinn, fóturinn og fýsibelgurinn hvarf úr smiðjunni, hafði allt verið tekið ófrjálsri hendi þótt ótrúlegt væri.
Nú liðu árin og ekkert spurðist til þessara hluta. En viti menn. Enn eitt ótrúlegt gerðist í sambandi við smiðju þessa. Sumarið 2004 vorum við Jón, vinur minn, stödd á Sléttaleiti, en þar höfum við dvalið öðru hvoru síðan nýja húsið var byggt. Þar sem við vorum á göngu stutt vestur í brekku, sjáum við bíl stansa við heimagötuna og út úr honum kom kona og tvö börn í átt til okkar. Við heilsuðumst, hún kynnti sig og sagðist vera langömmubarn Steinunnar Þórðardóttur, hálfsystur Guðnýjar Benediktsdóttur ömmu minnar. Hún vissi að þetta var Sléttaleiti þar sem Steinunn fæddist 1886. Ég bauð frænku, börnum hennar og eiginmanni að skoða húsið á gamla bæjarstæðinu ásamt rústum þar og að sjálfsögðu að líta inn í smiðjuna. Og hvað sjáum við þar inni? Gamli steðjinn er þar kominn í plastpoka og miði fylgdi með afsökunarbeiðni frá „lántakanda“.
Og nú liggur gamli steðjinn í smiðjunni og bíður þess að einhver góður maður hjálpi mér, gamalli konu, að ganga frá honum á steðjafætinum sem kom í stað þess sem hvarf og mig minnir að annar steðji hafi horfið af þeim fæti. Merkilegt hvað kemur mönnum til að stela steðjum! Einnig vona ég að mér verði hjálpað að fá tyrfða þekjuna á smiðjunni svo ég fái að sjá hana í sæmilegu standi áður en ég hverf héðan. Frá öllum þessum ævintýrum tengdum smiðjunni segir mun nánar í frásögn Einars Braga sem geymd er á Sléttaleiti.
Auk mín er enn á lífi fyrrverandi heimilismanneskja á Sléttaleiti, Jóhanna Þorsteinsdóttir, á níræðisaldri.
Að lokum vil ég geta þess að nú 22. desember 2005, eru 105 ár liðin frá fæðingu föður míns og næsta vor, 13. maí 2006, verða 110 ár liðin frá fæðingu móður minnar. Ég minnist þeirra beggja með þakklæti og virðingu.

Tekið saman á Sléttaleiti og á Höfn haustið 2005.
Jóhanna Guðrún Sveinsdóttir, alin upp á Sléttaleiti frá þriggja ára aldri.