Í Sveitarfélaginu Hornafirði eru mikil og merk ummerki um horfna byggð frá liðnum öldum
Ummerkin eru ýmsar tegundir jarðlægra minja, m.a. tóftir bæjarhúsa og annarra mannvirkja tengdum þeim. Þau eru vitnisburður um búsetu og mannlíf á tilteknu svæði frá mismunandi tímum. Minjar margra þessara fornu býla eru langt utan alfararleiðar og vitneskjan um tilurð og umfang þeirra ekki mörgum ljós.
Oft er lítið eftir af sögum liðinna tíma og horfinna býla í sveitum fyrrum Austur-Skaftafellssýslu nema tóftirnar. Íslenskar fornleifar eru að jafnaði ekki rismiklar og falla oft vel inn í landslagið en sumar eru mjög greinilegar og sjást langt að. Flestar minjar eru gerðar úr torfi og grjóti og ásýnd þeirra breytist á hundruðum ára. Á meðan sum mannvirkin eyðast og hverfa fyrir tilstilli náttúruaflanna, varðveitast önnur merkilega vel.
Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Þórbergssetur á Hala í Suðursveit hófu samstarf í apríl 2020 um skráningu þessara fornu býla með ítarlegum hætti. Megin tilgangur verkefnisins er að stuðlað að því að landfræði- og söguleg þekking á búsetuminjum frá liðinni tíð verði varðveitt og gerð kunn almenningi. Að gera sýnilegan merkilegan þátt í sögu forvera Austur-Skaftfellinga, sem margir hverjir bjuggu við sérstakar aðstæður þar sem fjölskyldur flæmdust á milli staða vegna ágangs jökla, jökuláa, jökulhlaupa og annarra náttúruhamfara. Erfiðar aðstæður sem fylgdu í kjölfarið urðu til þess að fjölmörg býli og hjáleigur fóru í eyði.
Hér kynnum við búsetuminjar í Suðursveit og á Mýrum. Á næstu árum mun athyglinni verða beint að fornum bæjarstæðum í Lóni, Nesjum og Öræfum enda meginmarkmið verkefnisins að kynna öll þekkt forn bæjarstæði í sveitum Austur-Skaftafellssýslu. Um leið og staðbundin þekking er skráð og varðveitt, verndum við söguna og gerum hana sýnilegri komandi kynslóðum.
Um vefinn

Verkefnisstjórar
- Sigríður Guðný Björgvinsdóttir, Menningarmiðstöð Hornafjarðar
- Þorbjörg Arnórsdóttir og Fjölnir Torfason, Þórbergssetur
Starfsmenn
- Vettvangsvinna: Sigríður Guðný Björgvinsdóttir, Anna Soffía Ingólfsdóttir, Sigurður Hannesson
- Myndataka: Kristinn Fjölnisson, Þórbergssetur. Sigríður Guðný Björgvinsdóttir, Menningarmiðstöð Hornafjarðar
- Umsjón vefsíðu: Heiðar Sigurðsson, Þórbergssetur. Sigríður Guðný Björgvinsdóttir, Menningarmiðstöð Hornafjarðar
Upplýsingar um eyðibýli verða settar á vefinn eftir því sem verkefninu vindur fram. Við frekari úrvinnslu má gera ráð fyrir að ýmsar viðbætur komi fram, þar sem það á við.
Allar ábendingar eru vel þegnar og má senda á netfangið info@busetuminjar.is. Ef þú vilt fá tölvupóst þegar nýtt efni kemur á vefinn geturðu skráð þig á póstlistann með því að smella hér.